Peter Crouch fyrrum framherji Liverpool segir það tóma steypu að ræða það að Jurgen Klopp verði sagt upp störfum hjá Liverpool. Titilvörn Liverpool hefur ekki gengið vel og virðist liðið í frjálsu falli þessa dagana.
Liverpool hefur tapað þremur deildarleikjum í röð og virðist útilokað að liðið endurheimti titil sinn. Umræðan getur verið fljót að breytast í ensku úrvalsdeildinni og nú velta margir framtíð Klopp fyrir sér.
„Ég sé það ekki gerast að Klopp verði látin fara í sumar. Hann hefur verið og mun halda áfram að vera frábær fyrir Liverpool. Ef það eru stuðningsmenn Liverpool sem telja að hann sé búinn að vera, þá legg ég til að þeir aðilar horfi inn á við fyrst. Það sem hann hefur gert fyrir Liverpool er magnað,“ sagði Crouch.
Klopp missti móður sína á dögunum en vegna kórónuveirunnar má hann ekki ferðast til Þýskalands og kveðja hana. „Klopp er að syrgja þessa dagana, fólk ætti að stíga eitt skref til baka og bera virðingu fyrir honum.“
„Ég get ekki ímyndað mér hvernig honum líður, að missa mömmu sína og fá svo ekki að mæta í jarðarförina. Þetta eru hræðilegar aðstæður að vera í.“
Crouch segir að það eigi að vera ákvörðun Klopp þegar kemur að því að yfirgefa Liverpool. „Það á enginn annar að taka ákvörðun um hvenær sá tímapunktur er fyrir Klopp að hætta.“
„Horfið bara á afrek hans, úrslitaleikir og búinn að vinna stærstu titlana. Hæfileikaríkir leikmenn hafa orðið að heimsklassa leikmönnum undir hans stjórn.“
„Það er rétt að titilvörn þeirra hefur ekki gengið en gleymum því ekki að Liverpool var á toppnum um jólin.“