Það þótti mörgum stuðningsmönnum Everton það vera fáranlegt að gefa Gylfa fyrirliðabandið í dag. „Er þetta brandari?“ spurði einn stuðningsmaður Everton. „Svo þú getur bara fengið fyrirliðabandið fyrir að ganga um völlinn í hverjum leik og bent á aðra. Ég skil þetta bara ekki.“ Fleiri stuðningsmenn Everton lýstu yfir óánægju sinni. „Gylfi er birtingarmynd alls þess sem er ekki í lagi hjá Everton á þessari stundu og nú er hann fyrirliði. Þetta félag er algjört klúður,“ sagði annar stuðningsmaður.
Það heyrist eflaust ekki jafn hátt í þessum stuðningsmönnum núna þar sem Everton náði að sigra spútnik lið Sheffield United með einu marki gegn engu. Auk þess sem Gylfi stýrði liðinu til sigurs í leiknum þá lagði hann líka upp eina mark Everton. Gylfi spilaði nánast allan leikinn en fór út af þegar einungis 2 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Stuðningsmenn Tottenham, Wolves og Manchester United eru eflaust glaðir með niðurstöðu leiksins þar sem Sheffield er nú búið að missa af baráttunni um Evrópusæti.
Í dag fór einnig fram leikur Brighton og Newcastle en sá leikur endaði með markalausu jafntefli. Hefur það litla þýðingu fyrir bæði lið þar sem hvorugt þeirra var í fallhættu né í baráttu um efstu sætin. Liðin skilja eflaust sátt þar sem þau fá bæði að spila í efstu deild Englands á næsta ári.