Matteo Guendouzi, leikmaður Arsenal, var í vandræðum eftir atvik sem átti sér stað um helgina. Guendouzi lék með Arsenal í 2-1 tapi gegn Brighton þar sem Neil Maupay skoraði sigurmark þess síðarnefnda á 94. mínútu.
Maupay hafði fyrr í leiknum brotið illa á Bernd Leno, markmanni Arsenal, sem þurfti að fara af velli. Eftir lokaflautið þá missti Guendouzi hausinn aðeins og tók framherjann hálstaki.
Flestir áttu von á því að Guendouzi myndi fá bann en þar sem VAR tók málið fyrir og ekkert var gert, getur enska sambandið ekki sett hann í bann.
Ensk blöð segja að Mikel Arteta vilji nú losna við Guendouzi frá Arsenal en hann hefur fengið nokkra sénsa hjá stjóranum á stuttum tíma. Guendouzi var settur út í kuldann í febrúar eftir að hafa hagað sér illa í æfingaferð í Dubai.
Það að hann hafi verið að röfla um það hvað hann hefði í laun og hversu vel stæður hann væri við leikmenn Brighton fór ekki vel í Arteta.