Knattspyrnufélagið Burnley hefur gefið út tilkynningu eftir atvik sem kom upp fyrir leik liðsins við Manchester City í kvöld.
Borði með skilaboðunum ‘White Lives Matter Burnley’ flaug yfir Etihad og virtist þar með gera lítið úr Black Lives Matter herferðinni sem er í gangi um allan heim.
Burnley mun vinna með yfirvöldum til þess að finna þá aðila sem standa á bakvið verknaðinn.
,,Knattspyrnufélagið Burnley fordæmir þessa hegðun og borðann sem flaug yfir Etihad völlinn á mánudagskvöld,“ sagði í tilkynningunni.
,,Við viljum koma því á framfæri að þeir sem standa á bakvið verkið eru ekki velkomnir á Turf Moor.“
,,Við munum vinna með yfirvöldum til þess að finna þá sem bera ábyrgð á verkinu og dæma þá í lífstíðarbann.“
,,Við stöndum fullkomlega með herferð ensku úrvalsdeildarinnar þegar kemur að Black Lives Matter-hreyfingunni og allir okkar leikmenn og starfsfólk tóku þátt í upphafi leiks.“
,,Við biðjum ensku úrvalsdeildina, Manchester City og alla þá sem taka þátt í baráttunni afsökunar.“