Utan vallar er skoðunarpistill
Íslandsmótið í knattspyrnu karla er farið af stað og það með látum, fyrstu fjórir leikirnir voru um helgina og umferðin klárast í kvöld. Leikir helgarinnar voru fjörugir en mótið hófst á laugardag þegar Íslandsmeistarar KR heimsóttu Val. Það vakti furðu margra þegar Val var spáð sigri í deildinni í öllum miðlum fyrir mótið. KR vann deildina með yfirburðum í fyrra og liðið virðist ekki vera að slaka neitt á.
Frammistaða Vals var mörgum mikil vonbrigði, liðið var hugmyndasnautt og Patrick Pedesern þurfti að fara langt niður á völlinn til þess að reyna að búa til hluti. Kantmenn liðsins voru lítið ógnandi og vandræði Heimis Guðjónssonar virðast vera talsverð fremst á vellinum. Heimir hefur ekki varamann fyrir Patrick. Augljósasta lausnin fyrir Heimi er að setja Sigurð Egil Lárusson aftur út á kant og setja Kristinn Frey Sigurðsson fyrir aftan Patrick. til að koma sóknarleik liðsins í gang
Frammistaða Vals í leiknum minnti óþægilega mikið á spilamennsku liðsins á síðustu leiktíð. KR-ingar eru hins vegar áfram í sama gír og í fyrra, klára jafna leiki. Öflugur varnarleikur og alltaf hættulegir þegar Óskar Örn Hauksson og félagar komast í boltann.
Fjörugt í Kórnum:
FH byrjaði tímabilið á sigri gegn HK í Kórnum, frammistaða liðsins var lengst um mjög góð. Daníel Hafsteinsson hóf leikinn á meðal varamanna en innkoma hans lofar góðu. Daníel mætti til leiks með hraða inn á miðsvæði FH, skipti boltanum vel á milli kanta og gæti reynst liðinu afar dýrmætur í sumar. FH hefur náð að smíða öflugt byrjunarlið, ef Ólafur Kristjánsson sleppur vel við meiðsli í sumar getur FH vel barist um þann stóra á nýjan leik.
HK varð fyrir mikilli blóðtöku á fimmtándu mínútu leiksins þegar Arnar Freyr Ólafsson markvörður liðsins meiddist. Sigurður Hrannar Björnsson kom inn en hann var að spila sinn annan leik í efstu deild. Sigurður hafði ekki spilað mótsleik frá árinu 2017 þegar hann lék tvo leiki með Aftureldingu í 2. deild. Það er öllum ljóst að Sigurður Hrannar er ekki nógu góður til að þess að standa vaktina í marki HK í efstu deild um langt skeið, séu meiðsli Arnars alvarleg þarf Brynjar Björn Gunnarsson að finna sér markvörð fljótt og örugglega.
Fallbyssufóður með frumsýningu
Breiðablik vann þægilegan og öruggan 3-0 sigur á Gróttu en um var að ræða leik kattarins að músinni. Blikar voru miklu sterkari og eiga að vera svekktir með sig að hafa ekki unnið leikinn miklu stærra. Frumsýning Gróttu í efstu deild var verri en búist var við.
Í fyrri hálfleik áttu leikmenn liðsins í stökustu vandræðum með að senda boltann, nokkrir í herbúðum Gróttu liðsins virðast ekki hafa neitt erindi í efstu deild að gera. Ekki skal fella stóra dóm yfir Gróttu eftir eina umferð en undirritaður verður afar hissa ef Grótta fer yfir tí stig í sumar. Hugmyndafræði félagsins um að borga engum leikmanni í laun í efstu deild er krúttleg en gengur líklega ekki upp á meðal þeirra bestu.
Blaður um uppalda leikmenn
Skagamenn þjöppuðu sér vel saman fyrir fyrstu umferð, stormurinn utan vallar sem hefur verið á allra vörum um slæma fjárhagsstöðu félagsins virðist ekki hafa áhrif á leikmenn liðsins. Stefán Teitur Þórðarson ungur miðjumaður félagsins átti frábæran leik og skoraði frábært mark. Stefán hefur mikla hæfileika og ljóst að með sama áframhaldi gæti hann náð langt á erlendri grundu.
3-1 sigur ÍA var staðreynd og eftir leik virtist Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA ágætlega sáttur, liðið stillti upp svo mörgum uppöldum leikmönnum að honum fannst tilefni til að minnast á það eftir leik þrátt fyrir að liðið hans sem vill máta sig við þá bestu hafi fengið skell gegn liði sem flestir spá fallbaráttu. Það er gott og vel að treysta á uppalda stráka en margir af þessum uppölduleikmönnum KA hafa ekkert að gera í lið sem vill berjast um Evrópusæti. KA þarf fyrst og síðast að huga að því að vera með nógu góða knattspyrnumenn, liðinu vantaði 3-4 sterka pósta og munar um minna en Óli Stefán á ekki að hrósa sjálfum sér fyrir uppalda leikmenn eftir slæmt tap.
Utan vallar er skoðunarpistill: