Breiðablik fer vel af stað í efstu deild karla á Íslandi en liðið fékk nýliða Gróttu í heimsókn í Kópavoginn í kvöld. Yfirburðir liðsins voru gríðarlegir en sigurinn var þó aðeins 3-0.
Viktor Karl Einarsson skoraði mark liðsins í fyrri hálfleik áður en Thomas Mikkelsen bætti við öðru markinu í þeim síðari. Kristinn Steindórsson hlóð svo í það þriðja, glæsilegt mark í endurkomu hans. Hákon Rafn Valdimarsson markvörður Gróttu átti stjörnuleik og hélt liðinu á floti
Um var að ræða fyrsta leik Óskars Hrafns Þorvaldssonar við stýrið hjá Blikum en hann tók við starfinu af Ágústi Gylfasyni sem tók við starfi hans hjá Gróttu og var hann því einnig að þreyta frumraun sína.
Plús og mínus er hér að neðan.
Plús:
Andri Rafn Yeoman sem hægri bakvörður var öflugur, frábær að vinna stöðuna einn á móti einum og lagði markið vel upp fyrir Thomas Mikkelsen.
Gísli Eyjólfsson var frábær í liði Breiðabliks í kvöld, gat labbað framhjá leikmönnum Gróttu þegar hann vildi. Harkalega gagnrýndur eftir heimkomuna í fyrra en hefur náð vopnum sínum á nýjan leik.
Það voru fáir ljósir punktar í leik Gróttu í kvöld en frammistaða Hákoni Rafni í marki Gróttu var mögnuð. Ungur að árum að spila sinn fyrsta leik í og var gjörsamlega frábær. Bjargaði Gróttu frá niðurlægingu.
Kristinn Steindórsson snéri aftur í Kópavoginn og skoraði geggjað mark, gæti nýst Blikum vel ef hann finnur markaskóna sem hafa lengi verið ofan í skúffu.
Mínus:
Brynjólfur Andersen Willumsson fékk urmul færa til að skora í kvöld. Þarf að taka færin sín betur ef hann ætlar að standa undir því að vera með hárgreiðsluna sem hann bauð upp á í kvöld en Brynjólfur hafði látið lita númerið 45 í hár sitt.
Spilamennska Gróttu framan af leik var arfa slök, leikmenn liðsins gátu varla sent boltann á milli sín. Það lagaðist eftir að Arnar Þór Helgason lét reka sig af velli.
Frumraun Gróttu í efstu deild fær falleinkunn, ef liðið spila svona í sumar verða stigin ekki mörg.