Kristinn Steindórsson komst loksins á blað eftir langa markaþurrð í 3-0 sigri Breiðabliks á Gróttu í kvöld.
Kristinn kom frá FH fyrir mót en hann var áður hjá Blikum og hélt svo út í atvinnumennsku.
,,Það er bara mjög góð tilfinning og ekki slæmt að byrja hana svona með sigri. Fyrsti leikurinn er alltaf erfiður og það er auðvelt að misstíga sig þó að þetta sé leikur sem við eigum að klára á pappír,“ sagði Kristinn.
,,Það er eitthvað búið að vera í umræðunni [markaþurrðin] og gott að sjá að maður getur ennþá skorað, ágætis mark líka!“
,,Maður bjóst ekki við að það myndi koma tveggja og hálfs mánaða frí og að maður þyrfti að hanga heima en það er búið að taka vel á móti manni. Frábær umgjörð og frábær hópur og mér líður bara eins og í gamla daga.“