Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var að vonum kátur í kvöld eftir þrjú stig í opnunarleik Íslandsmótsins.
KR vann góðan 1-0 útisigur á Val á Hlíðarenda og byrjar mótið á baráttusigri.
,,Fyrri hálfleikurinn var mjög góður. Við byrjuðum ofboðslega vel og liðið var með sjálfstraust. Við skoruðum frábært mark eftir góða sókn,“ sagði Rúnar.
,,Við unnum boltann trekk í trekk fyrir utan teiginn þeirra og getum herjað á þá. Þetta eina mark skildi liðin að, þetta var mjög jafn leikur. Tvö lið sem búið er að spá toppbaráttu í sumar.“
,,Við drógum lengsta stráið og skoruðum þetta eina mark og náðum að hanga á þessu.“
Það var hart tekist á í leik kvöldsins og viðurkennir Rúnar að sumir séu verr farnir en aðrir.
,,Það eru líkur á því að einhverjir verði í fríi í fyrramálið og næstu daga, við misstum menn útaf vegna meiðsla.“
,,Menn voru þjakaðir en það eru pústrar í þessu. Menn detta harðar á gervigras en á grasi, ég vona að við verðum ekki án þessara manna í næstu leikjum.“