Íslenska fótboltasumarið hjá körlunum hófst formlega í kvöld með leik Vals og KR á Hlíðarenda í efstu deild.
Leikurinn var fjörugur en það voru Íslandsmeistarar KR sem höfðu betur. Óskar Örn Hauksson skoraði eina mark leiksins seint í síðari hálfleik.
Valsmenn ógnuðu lítið í síðari hálfleik og sigur KR að lokum nokkuð sanngjarn.
Plús og mínus af Hlíðarenda er hér að neðan.
Plús:
Óskar Örn Hauksson skoraði fyrsta mark sumarsins. Sautjánda tímabilið í röð í efstu deild sem Óskar Örn sem fagnar 36 ára afmæli á þessu ári skorar í deildinni.
Það er ánægjulegt fyrir áhugafólk um knattspyrnu að boltinn sé byrjaður að rúlla, ekki fallegasti knattspyrnuleikur sögunnar en vel tekist á og stemming á Hlíðarenda.
Arnþór Ingi Kristinsson virðist ætla að halda áfram frá síðasta tímabili, var virkilega öflugur í kvöld. Stálið á miðsvæðinu sem heldur góðu jafnvægi í leik liðsins..
Mínus:
Mennirnir þrír fyrir aftan Patrick Pedersen áttu allir slakan dag. Aron Bjarnason var gjörsamlega týndur, Sigurður Egill sást lítið sem ekkert og það sem Kaj Leó gerði var ekkert sérstakt.
Getur Heimir Guðjónsson leyft sér það að nota Sigurð Egil fyrir aftan framherjann þegar breiddin á kantinum er ekki meiri?
Meiðsli leikmanna eru mínus eftir kvöldið, eftir örfáar vikur til undirbúnings er viðbúið að fjöldi leikmanna í deildinni meiðist á næstu vikum. Rasmus Steenberg Christiansen meiddist hjá Val og Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Finnur Tómas Pálmason hjá KR. Aðrir urðu fyrir hnjaski og fór Pálmi Rafn Pálmason haltur af velli.
Gamlir draugar frá síðustu leiktíð eftir þetta tap Vals, liðið lék illa í fyrra og leikurinn í kvöld minnti um margt á það tímabil.