Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var mættur á leik KR og Vals í gær í Pepsi Max-deild kvenna.
Knattspyrnan hér heima er nú farin af stað á ný og var leikur gærkvöldsins opnunarleikur mótsins.
Guðni skemmti sér konunglega á leiknum eins og mátti sjá í Facebook-færslu forseta eftir leikslok.
Með færslunni birti Guðni einnig mynd en á henni má sjá Margréti Láru Viðarsdóttur sem lagði nýlega skóna á hilluna.
Margrét er ein besta knattspyrnukona sem við höfum átt en hún ákvað að kalla þetta gott eftir síðustu leiktíð.
,,Það var sérstaklega gaman að hitta Margréti Láru Viðarsdóttur sem var heiðruð fyrir leikinn. Margrét Lára er enn frábær íþróttamaður og fyrirmynd þótt knattspyrnuskórnir séu komnir á hilluna,“ skrifar Guðni.
Þeir Edvard Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, voru einnig með á mynd.