Fjöldi leikmanna Everton og allt þjálfarateymið hafa tekið á sig launaskerðingu frá því í mars og gildir hún í þrjá mánuði.
Everton fór fram á þetta til að halda skipinu á floti en félagið eins og önnur upplifa fjárhagserfiðleika vegna kórónuveirunnar.
Í bréfi félagsins til stuðningsmanna kemur fram að allt þjálfarateymið hafi tekið á sig 30 prósenta skerðingu til þriggja mánaða. Launin verða svo greidd síðar meira.
Sumir gefa launin eftir til frambúðar en aðrir fá launin síðar. Flestir leikmenn í aðalliði Everton gerðu slíkt hið sama og margir tóku á sig 50 prósenta launaskerðingu í þrjá mánuði. Leikmennirnir fá launin greidd síðar.
Gylfi Þór Sigurðsson er í leikmannahópi Everton og er sagður þéna 100 þúsund pund á viku eða 17 milljónir íslenskra króna. Hafi Gylfi frestað launagreiðslum sínum til þriggja mánaða, gæti sú upphæð verið um 100 milljónir íslenskra króna.
Gylfi ætti þó að fá þessa upphæð síðar þegar lífið kemst aftur í venjulegar skorður og Everton fær tekjur inn í kassann.