Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands vill halda Erik Hamren í starfi þjálfara. Sama hvort Ísland komist inn á EM eða ekki.
Eftir mánuð fer Ísland í umspil um laust sæti á EM í sumar, fyrst er leikur við Rúmeníu í undanúrslitum. Vinnist sigur þar fer liðið í hreinan úrslitaleik við Ungverjaland eða Búlgaríu.
,,Hamren er staðráðinn í að gera vel, hann er jafn hungraður og við að komast á EM,“ sagði Aron Einar við Ríkharð Óskar Guðnason í Brennslunni í morgun.
Ríkharð spurði Aron að því hvort hann myndi vilja hafa Hamren áfram í starfi, sama hvort Íslandi fari á EM eða ekki.
,,Já, já. Það er ekki undir mér komið, við eigum gott samband. Hann og leikmennirnir eiga gott samband, ekkert vandamál þar,“ sagði Aron en Hamren er að nálgast tvö ár í starfi.
,,Það er ekki undir mér komið, stjórn KSÍ og aðrir taka þá ákvörðun. Það er undir Hamren komið líka, við ætlum á EM. Við ætlum ekki að hugsa um hvort þjálfarinn verði áfram, við ætlum okkur á EM.“