Manchester United og Sporting Lisbon eru nú að deila um kaupverðið á Bruno Fernandes, miðjumanni félagsins. United vill kaupa Fernandes og Sporting er tilbúið að selja.
Talið er að Fernandes sé á leið til United í þessum glugga vegna fjárhagsvandræða Sporting Lisbon.
Ensk blöð segja að United sé búið að bjóða 50 milljónir punda, og 10 milljónir punda að auki í bónusa. Það fer eftir frammistöðu liðsins og Fernandes, hversu mikið Sporting fær af því.
Sporting vill hins vegar 64 milljónir punda strax, ekki neina bónusa en félögin deila um þessi mál núna.
Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, var spurður út í möguleg skipti eftir 4-0 sigur á Norwich um helgina.
,,Bruno Fernandes? Ég get ekki talað um einstaklinga sem spila fyrir önnur félög en ég get sagt að ég er með stuðning,“ sagði Solskjær.
,,Við erum með stuðning ef það rétta kemur upp í glugganum. Eigendurnir og Ed Woodward, þeir vita hvað við viljum afreka.“