Antonio Rudiger, leikmaður Chelsea, varð fyrir kynþáttaníði á heimavelli Tottenham í kvöld.
Rudiger spilaði með Chelsea gegn Tottenham en þeir bláklæddu unnu góðan 0-2 útisigur.
Í seinni hálfleik þá ræddi Rudiger við fyrirliða sinn Cesar Azpilicueta og greindi frá því að hann hafi orðið fyrir rasisma.
Azpilicueta fór því og ræddi við Anthony Taylor, dómara leiksins, sem lét sína aðstoðarmenn vita.
Rudiger gaf einnig til kynna að hann hafi verið kallaður api af stuðningsmönnum heimaliðsins.
Hann tjáði sig um atvikið eftir leik.
,,Það er mjög sorglegt að verða vitni af rasisma á knattspyrnuleik en það er mikilvægt að tala um það opinberlega,“ sagði Rudiger.
,,Ef ekki þá verður þetta gleymt eftir nokkra daga eins og alltaf. Ég hef fengið mikinn stuðning og líka frá stuðningsmönnum Tottenham og ég þakka fyrir það.“
,,Ég vona að þeir seku verði fundnir og að þeim verði refsað bráðlega. Á svona nýjum velli, með þessar myndavélar og sjónvörp, það hlýtur að vera hægt að finna þá og refsa þeim.“
,,Ef ekki þá hlýtur einhver að hafa orðið vitni að þessu og sá eða heyrði atvikið. Það er skömm af því að rasismi sé til árið 2019. Hvenær hættir þetta kjaftæði?“