Sindri Snær Jensson, markvörður KR hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna. Hann hefur verið í hlutverki varamarkvarðar síðustu ár.
KR-ingar hafa haft mikið álit á Sindra sem hefur staðið sig vel þegar hann hefur þurft að spila, hann hefur svo verið sterkur í klefa liðsins.
Pistill Sindra á Facebook:
Skórnir og hanskarnir á hilluna.
Eftir sex frábær ár með sigursælasta knattspyrnufélagi Íslands hef ég ákveðið að setja endapunkt á ferilinn sem leikmaður. Ákvörðunin var ekki auðveld enda fótbolti eitt það skemmtilegasta sem ég veit um og tíminn hjá KR verið mikið ævintýri. En þeir sem þekkja til vita að sportið er tímafrekt og miklum tíma varið í æfingar allan ársins hring. Nú þegar Yuzu er komið af stað ákvað ég að verja tímanum frekar í fyrirtækin mín og það heillar einnig að hafa frelsi til að ferðast að vild og þurfa ekki að skipuleggja allt í kringum fótboltann. Ég sé ekki eftir einni einustu mínútu sem ég hef varið fyrir KR og hef ég eignast vini fyrir lífstíð. Það sem stendur upp úr er að sjálfsögðu Íslandsmeistaratitill 2019 & Bikarmeistaratitill 2014.
Flestir munu sjálfsagt minnast mín sem einhvers konar Carlo Cudicini Íslands, varamarkmanns sem hafði það notalegt. Engu að síður er ég mjög stoltur af þeim 39 leikjum sem ég spilaði fyrir KR og man ég best eftir skemmtilegum undanúrslitum í bikar í Eyjum 2014 og unnum við í framhaldinu bikarinn. Þegar ég var í marki unnum við eiginlega alltaf enda hata ég meira að tapa en ég elska að vinna.
Þrátt fyrir að hanskarnir séu komnir á hillunna þýðir það ekki að öllum afskiptum mínum af fótbolta sé lokið, hver veit nema ég þjálfi, bjóði mig fram í stjórn hjá KR eða tjái mig um fótbolta í fjölmiðlum.
Mig langar að þakka KR og öllu frábæra fólkinu fyrir tímann og þá sérstaklega Rúnari Kristinssyni sem er langbesti þjálfari sem ég hef nokkurn tímann haft.