Harry Redknapp, fyrrum stjóri Tottenham, telur að Christian Eriksen eigi að fara á bekkinn hjá félaginu.
Eriksen hefur ekki staðist væntingar á þessu tímabili en hann neitar að skrifa undir nýjan samning við félagið.
Redknapp telur að það myndi hjálpa Tottenham að nota aðra leikmenn og leyfa Eriksen að komast burt á næsta ári.
,,Ég get ekki séð hann skrifa undir nýjan samning. Ég held að hann láti hann renna út og verður svo frír næsta sumar,“ sagði Redknapp.
,,Ef hann vill ekki vera áfram og hefur ákveðið sig þá myndi ég nota annan leikmann.“
,,Ef hann vill ekki vera hluti af liðinu þá er það mjög erfitt. Þú vilt leikmenn sem vilja spila fyrir félagið og það er kominn tími á að sætta sig við það.“