Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Moldóvu:
Íslenska karlalandsliðið endar undankeppni EM á sigri en við spiluðum við Moldóva á útivelli í kvöld. Leikur kvöldsins var fínasta skemmtun en strákarnir sóttu þrjú góð stig til Moldóva.
Birkir Bjarnason skoraði fyrsta mark Íslands snemma leiks en hann kom boltanum í netið á 17. mínútu. Heimamenn jöfnuðu nokkuð óvænt á 56. mínútu en Moldóva ógnaði marki Íslands þónokkrum sinnum í leiknum.
Stuttu seinna skoraði Gylfi Þór Sigurðsson annað mark Íslands og fékk svo að stíga á vítapunktinn um 12 mínútum síðar. Gylfa tókst hins vegar ekki að skora úr spyrnunni en markvörður Moldóva varði meistaralega. Ískaldur Gylfi á vítapunktinum, síðustu mánuði.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og endar Ísland riðlakeppnina með 19 stig úr tíu leikjum. Liðið leikur í umspili um laust sæti á EM, í mars.
Byrjunarlið Íslands:
Hannes Þór Halldórsson 6
Hefði mögulega mátt koma af línunni í marki Moldóvu en varnarmenn liðsins voru illa staðsettir.
Guðlaugur Victor Pálsson 5
Ágætis frammistaða
Ragnar Sigurðsson 6
Sem betur fer hætti Ragnar ekki eftir HM í Rússlandi, öflugur í þessari undankeppni.
Sverrir Ingi Ingason 5
Var sofandi í markinu sem Moldóva skoraði en var þess utan í fínum takti.
Ari Freyr Skúlason 7
Endurkoma Ara inn í landsliðið hefur verið frábær, flestir héldu að hann yrði á bekknum til framtíðar en hann hefur gripið gæsina með báðum höndum.
Mikael Neville Anderson (´54) 7
Flottur fyrsti leikur í byrjunarliði, gerði vel í marki Birkis og komst vel frá sínu. Var sparkaður í tvígang illa niður og fór meiddur af velli.
Gylfi Þór Sigurðsson 7
Fínasti leikur, gott mark en vandræðin á vítapunktinum halda áfram.
Birkir Bjarnason 8
Besti maður vallarins, þetta haust hefur verið frábært hjá Birki. Toppaði það með góðum leik og marki í kvöld.
Arnór Sigurðsson 6
Sást ekki fyrsta klukkutímann en gerði vel eftir það, fiskaði vítaspyrnuna vel.
Jón Daði Böðvarsson 7
Gerði vel í markinu hans Gylfa og var talsvert í boltanum. Mjög öflugur í síðari hálfleik
Kolbeinn Sigþórsson (´29) 6
Hafði byrjað fínt en það var erfitt að sjá framherjann meiðast enn á ný.
Varamenn:
Viðar Örn Kjartansson (´29) 6
Kom með ágætis kraft inn og hefði getað skorað.
Samúel Kári Friðjónsson (´54) 5
Komst fínt frá sínu