Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Kísinev í Moldóvu:
Það kemur í hlut Tékkans Pavel Královec að dæma leik Íslands og Moldóvu í síðasta leik okkar í undankeppni Evrópumótsins næsta sumar. Leikurinn hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma en 21:45 að staðartíma.
Pavel til aðstoðar verða Ivo Nadvornik og Tomáš Mokrusch. Fjórði dómari leiksins er Miroslav Zelinka.
Pavel Královec er fæddur árið 1977 og er reynslumikill dómari. Hann dæmdi í undankeppni EM árið 2008 og hefur einnig dæmt í Evrópudeildinni og Meistaradeildinni. Pavel dæmdi fjóra leiki í undankeppni HM 2018, þar á meðal var leikur Finnlands og Íslands í september 2017.
Leikurinn endaði með 1-0 sigri Finna en í leiknum fékk Rúrik Gíslason að líta rauða spjaldið. Rúrik hafði komið inn á sem varamaður í leiknum en rúmum fimmtán mínútum síðar var hann farinn af velli með tvö gul spjöld. Í samantekt Vísis frá leiknum kom fram að Pavel hafi átt slakan leik.
„Slakur dómari leiksins, Pavel Královec, var í sviðsljósinu í fyrri hálfleik. Tim Sparv, fyrirliði Finnlands, komst upp með að gefa Alfreð olnbogaskot og Robin Lod slapp á einhvern óskiljanlegan hátt með gult spjald þegar hann fór með sólann í legginn á Alfreð. Þá eru ótaldar nokkrar ákvarðanir Královec sem orkuðu tvímælis,“ segir í umfjöllun Vísis frá 2017.
Eins og að framan greinir er Pavel þó reynslumikill dómari sem hefur fengið nokkra stóra leiki á undanförnum árum. Hann dæmdi tvo leiki í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra og fjóra leiki árið þar á undan, þar á meðal leik Manchester City og Basel í 16-liða úrslitum keppninnar.