Karim Benzema, framherji Real Madrid, biður franska knattspyrnusambandið um að leyfa sér að spila fyrir landslið Alsír.
Benzema á að baki 81 landsleik fyrir Frakkland en hann fær hins vegar ekkert að spila í dag eftir nokkra skandala á sínum tíma.
Framherjinn lék sinn síðasta landsleik fyrir fjórum árum síðan og fær því aldrei tækifæri lengur.
Noel le Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins, staðfesti það nýlega að Benzema væri búinn að spila sinn síðasta landsleik en hann tekur það ekki í mál og vill skipta yfir.
,,Munið það að það verður ég og aðeins ég sem ákveð hvenær landsleikjaferlinum er lokið,“ sagði Benzema.
,,Ef þið segið að ég sé búinn, leyfið mér þá að spila fyrir annað land þar sem ég er löglegur og við sjáum til.“