Arnar Sveinn Geirsson, varnarmaður Breiðabliks skrifar pistli í dag á Vísir.is um ferðalag sem hann fór í, á dögunum. Arnar hefur áður sagt sögu sína, hvernig það er að missa móður sína ungur að árum. Hann segir nú frá því hvernig dagurinn var, þegar hann fékk fréttirnar, að mamma hans ætti lítið eftir.
,,Fyrir rúmri viku síðan hélt ég af stað, einn, í ferðalag, og það ekkert smá ferðalag. Áfangastaðurinn var Sydney og förinni því heitið alla leið hinum megin á hnöttinn. Dagurinn áður en ég fór af stað var mjög erfiður. Ég brotnaði niður heima þegar ég allt í einu áttaði mig á því að það væri komið að þessu, en ég vissi ekki af hverju. Ég var varla heill, né hálfur maður,“ skrifar Arnar í pistli á Vísir.is.
Arnar hefur reglulega tjáð sig um sorgina, sem hann hefur upplifað frá því að móðir hans lést árið 2003. Hann hefur talað opinskátt um ferlið og hvernig hann er enn í dag að vinna úr hlutunum.
,,Á meðan ég sat inni í eldhúsi að borða heyrði ég útidyrahurðina opnast og vissi sem var að pabbi væri að koma heim. Pabbi kemur inn í eldhús, á meðan ég er ennþá að borða, og ég sé strax að það er eitthvað ekki eins og það á að vera. Hann segir mér að hann þurfi að tala við mig. Þarna var pabbi í þann mund að fara að segja 11 ára gamla stráknum sínum að mamma hans kæmi aldrei aftur heim af spítalanum.“
,,Þegar 11 ára gamall strákur fær fréttir sem þessar kemur flóð tilfinninga. Flóð tilfinninga sem sumar hverjar 11 ára strákur hefur aldrei upplifað, og þá allavega ekki í þessu magni. Næstu daga var ég mikið inni á spítala með mömmu og var oft á tíðum erfitt að fá mig út af honum. Fjórum dögum síðar, þann 16. maí 2003, dó hún.“
Arnar segist hafa brotnað niður á dögunum, sökum þess að hann er hræddur við að sakna. ,,Þegar ég brotnaði niður daginn fyrir ferðalagið að þá var ég ekki að brotna niður af því að ég hræddist flugferðirnar, eða af því að ég hræddist það hvert ég var að fara. Ég hræddist fjarlægðina. Ég hræddist söknuðinn. Ég er svo ofboðslega hræddur við að sakna, og hef í raun aldrei leyft mér að sakna. Ég ýti söknuðinum til hliðar.“