Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Kísinev í Moldóvu:
Óvíst er hversu margir verða Zimbru Stadium í Kísinev í kvöld þegar Moldóva tekur á móti Íslandi. Sex þúsund ársmiðahafar eiga miða á alla leiki undankeppninnar en klukkan 12 á hádegi í dag höfðu 2.500 miðar til viðbótar selst í almennri sölu. Þetta eru því samtals um 8.500 miðar sem eru fráteknir. Völlurinn tekur 10.400 áhorfendur í sæti.
Leikurinn fer fram nokkuð seint á heldur köldu sunnudagskvöldi og því óvíst hvort allir ársmiðahafar skili sér. Leikurinn hefst klukkan 21:45 að staðartíma og lýkur því ekki fyrr en um 23:30. Þar að auki hefur árangur Moldóvu í undankeppninni ekki verið upp á marga fiska, þó stuðningsmenn hafi ef til vill tekið við sér eftir góðan leik gegn heimsmeisturum Frakka á fimmtudagskvöld.
Samkvæmt fjölmiðlum í Moldóvu er reiknað með um hundrað Íslendingum á leikinn sem er nokkuð ríflegt samkvæmt upplýsingum 433.is. Að minnsta kosti einn hópur Íslendinga, samtals um tólf manns, verða á vellinum en vel gæti verið að þeir séu fleiri.