Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Kísinev í Moldóvu:
Yfirgnæfandi líkur eru á sigri Íslands gegn Moldóvu í kvöld ef marka má skoðanakönnun um leikinn á vef UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu.
76,6 prósent spá íslenska liðinu sigri í leiknum af þeim sem tekið hafa þátt í könnuninni. 16 prósent spá Moldóvum óvæntum sigri og rúmlega 7 prósent spá því að leikurinn endi með jafntefli.
Moldóva hefur aðeins unnið einn leik í riðlinum til þessa, 1-0 gegn Andorra á heimavelli sínum. Liðið stóð þó óvænt í heimsmeisturum Frakka á fimmtudagskvöld í leik sem endaði 2-1 fyrir Frakka. Moldóva komst yfir snemma leiks en Olivier Giroud skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.
Ísland og Moldóva mættust á Laugardalsvelli í haust í leik sem endaði með 3-0 sigri Íslands. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma en klukkan 21:45 að staðartíma.