„Ég hlakka til leiksins á morgun. Þetta verður áhugaverður leikur sem við viljum og verðum að vinna. En við vitum að þetta verður erfiður leikur. Tyrkir hafa hrifið mig hingað til í undankeppninni. Þeir hafa náð frábærum úrslitum og við vitum að þetta verður erfiður leikur. Við munum reyna að vinna, það er markmiðið.“
Þetta sagði landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén á blaðamannafundi vegna leiks Tyrkja og Íslendinga á morgun. Hamrén var meðal annars spurður að því hver væri mesti styrkleiki tyrkneska liðsins.
Hamrén benti réttilega á að Tyrkir hefðu ávallt haft marga góða einstaklinga í sínum röðum, flinka leikmenn sem geta gert hluti upp á eigin spýtur. „Þeir hafa alltaf haft góða leikmenn, sterka einstaklinga. Þeir hafa það líka að þessu sinni. En munurinn nú er að þeir eru meira að vinna sem lið núna. Það er kannski það sem ég hef hrifist hvað mest af.“