Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Istanbúl:
Cenk Tosun, einn af lykilmönnum Tyrklands, er meiddur og mun ekki taka þátt í leiknum gegn Íslandi á morgun. Þetta kemur fram í tyrkneskum fjölmiðlum nú síðdegis.
Þetta er talsvert áfall fyrir Tyrki enda hefur Tosun skorað 16 mörk í 42 landsleikjum. Hann skoraði sigurmarkið fyrir Tyrki gegn Andorra í uppbótartíma í leik liðanna í október.
Tyrkir eru þó með aðra ágætis leikmenn sem geta vel fyllt skarð hans. Þar ber helst að nefna Burak Yilmaz, framherja Besiktas, sem er markahæstur í hópnum hjá Tyrkjum með 24 mörk í 55 landsleikjum.
Þá er óvissa með það hvort Emre Belozoglu, miðjumaðurinn reyndi og fyrirliði Tyrkja, geti tekið þátt í leiknum á morgun en hann hefur verið að glíma við meiðsli og tók ekki þátt í æfingu Tyrkja í gær.