Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu rifjar upp ferð sína á Litla-Hraun í blaði helgarinnar. Knattspyrnulið sem starfrækt hefur verið á Mogganum í fjölda ára.
Þar mættu blaðamenn Morgunblaðsins liðinu á Litla Hrauni sem reglulega hefur verið fjallað um, FC Hrottar.
,,Fyrir meira en tveimur áratugum héldum við sem heyrum til Knattspyrnufélagi Magnúsar Finnssonar, sem starfrækt hefur verið hér á Morgunblaðinu í rúm fjörutíu ár, sem leið lá í keppnisferð austur á Litla-Hraun. Við höfðum frétt að þar væri sprækt knattspyrnulið, FC Hrottar, og langaði að reyna okkur við það,“ skrifar Orri í Morgunblaðið.
Leikið var á malarvellinum á hrauninu og var líf og fjör. Einn vistmaður fór undir girðinguna, til að sækja boltann. Það vakti athygli Orra.
,,Leikurinn hófst á tilsettum tíma og var leikið á malarvelli, sem þá var, við aðalbyggingu fangelsisins. Nú er þar gervigras. Aðeins sparkendurnir fengu útivistarleyfi af vistmönnum en hinir fjölmenntu út í glugga og hvöttu sína menn ákaft til dáða með dynjandi rúðuslætti.“
,,Ekki voru margar mínútur liðnar af leiknum þegar hreinsað var með slíkum myndarbrag að tuðran sveif yfir girðinguna við völlinn; sem þó var ekki af minni gerðinni. Við magnúsingar gláptum á eftir tuðrunni eins og tröll á heiðríkju og óttuðumst að leik væri lokið. Ekki aldeilis. Einn varamanna gestgjafanna tók umsvifalaust á rás, renndi sér gegnum holu undir girðinguna og hljóp eins og fætur toguðu niður veginn til Stokkseyrar eða Eyrarbakka. Man aldrei hvort þorpið er nær. Við gestirnir litum að vonum í forundran á fangavörðinn sem annaðist dómgæslu. „Hann kemur aftur,“ fullyrti hann án þess að depla auga.“
Leikurinn fór að mestu vel fram en einn leikmaður Hrottanna, gekk hart fram.
,,Glíman gekk að mestu leyti vel fyrir sig en harkan í einum vistmanna fór þó svolítið fyrir brjóstið á okkur; hann tæklaði mann og annan upp í háls og reif stólpakjaft. „Fyrir hvað situr þessi eiginlega inni?“ spurðum við fangavörðinn forvitnir. Ekki stóð á svari: „Skjalafals!““