

Guðjón Þórðarson, hefur sagt upp störfum hjá NSÍ Runavík í Færeyjum. Guðjón endaði með liðið í þriðja sæti deildarinnar, sem var flottur árangur í endurkomu Guðjóns í þjálfun. Liðið náði Evrópusæti.
Guðjón hafði ekki þjálfað í sjö ár þegar hann snéri aftur til Færeyja og sannaði ágæti sitt. Guðjón fékk ekki starf á Íslandi eftir að hafa farið í dómsmál gegn Grindavík. Þar var Guðjóni sagt upp en krafðist launa sinna út samninginn, hann vann málið fyrir dómi, Grindavík þurfti að greiða Guðjóni tæpar 9 milljónir.
„Það sem gerðist á þeim tíma var að ég fékk mjög slæmt umtal heima. Ég sótti rétt minn og fór með hann í dóm og vann dómsmál. Sem þýddi það að þeir sem að brutu samning voru gerðir ábyrgir á samningnum og það var erfitt,“ segir Guðjón við RÚV.
,,Mörg félög vildu ekki nálgast mig út af því meðal annars. En í dag er ég bara brattur og naut þess að fara í þennan fótbolta sem ég tók að mér í sumar, skemmtileg en krefjandi áskorun, og ég hafði mjög gaman af því.“
Guðjón leitar að næsta starfi í boltanum, hann hefur sótt um starf landsliðsþjálfara Færeyja.
„Það eru svona krókarnir úti. Þetta er eins og að veiða í gruggugu vatni, maður veit aldrei hvort eitthvað gerist. Það eru vangaveltur vítt og breytt, ekkert í hendi og raunverulega ekkert sem hægt er að tala um.“