Jón Páll Pálmason hefur verið ráðinn næsti þjálfari Víkings Ó. í knattspyrnu.
Jón Páll er 37 ára gamall Hafnfirðingur sem undanfarin 6 ár hefur þjálfað í Noregi. Fyrst þjálfaði hann Klepp í norsku úrvalsdeild kvenna áður en hann tók við karlaliði Stord. Áður hafði hann einnig þjálfað karlalið Hattar í 2.deildinni og Fylki í Pepsideild kvenna. Þá hefur hann einnig mikla reynslu úr þjálfun yngri flokka.
Jón Páll gerir 3 ára samning við Víking Ó. og mun samhliða starfi meistaraflokksþjálfara gegna stöðu yfirþjálfara yngri flokka hjá UMF Víkingi/Reyni.
„Ég er þakklátur fyrir að vera treyst fyrir því verkefni að stýra Víkingi í Inkassodeildinni. Ég hlakka til að flytja heim til Íslands og við munum vinna hart að því að smíða saman mjög gott lið í Ólafsvík,“ sagði Jón Páll við undirritunina í dag.
Jóhann Pétursson, formaður meistaraflokks Víkings Ó, hafði þetta að segja: „Við í stjórn Víkings erum fullir tilhlökkunar að fá Jón Pál til okkar. Hann er þjálfari sem kemur með reynslu og kraft í okkar klúbb. Við væntum mikils af komandi samstarfi við Jón Pál.“