Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður Breiðabliks í Pepsi Max-deild karla, ræddi ítarlega við RÚV í viðtali sem var birt í kvöld.
Alexandra er ein af vonarstjörnum Íslands en hún er gríðarlega efnileg og spilaði stórt hlutverk með Blikum í sumar.
Það er þó ekki alltaf dans á rósum að vera knattspyrnumaður í kvennaflokki en eins og þekkt er þá eru launin þar langt frá því að vera þau sömu og í karlaflokki.
Alexandra er sjálf að mennta sig í háskóla Reykjavíkur en hún lærir þar heilbrigðisverkfræði.
Í samtali við RÚV þá segir Alexandra að bestu atvinnumenn kvenna fái um það bil sömu laun og karlar fá hér heima fyrir að spila í efstu deild.
„Ég byrjaði í HR núna eftir sumarið í heilbrigðisverkfræði. Það gengur. Erfitt með fótboltanum og sérstaklega öllum ferðunum núna, en þetta gengur,“ sagði Alexandra við RÚV.
„Ef ég væri af hinu kyninu þá væri ég alveg til í að vera bara úti núna og vera ekkert að pæla í að ég þyrfti að fara að mennta mig eða eitthvað svoleiðis.“
,,En þetta er alveg eitthvað sem að við þurfum að pæla í þegar við erum hættar í fótbolta og meira segja meðan við erum í fótbolta ef við erum ekki bara að spila erlendis.“
,,Bestu leikmenn erlendis eru að fá svipað mikið og karlarnir í Val. Þannig að þetta er alveg eitthvað sem við þurfum að pæla í meira en karlarnir.“