Paolo Maldini, goðsögn AC Milan, hefur tjáð sig um mögulega endurkomu Zlatan Ibrahimovic til félagsins.
Zlatan er á förum frá LA Galaxy í nóvember en hann verður þá samninglaus.
Maldini telur þó að Zlatan gæti verið örlítið hræddur við það að snúa aftur í ítalska boltann, 38 ára gamall.
,,Það yrði draumur ef Ibra snýr aftur og það eru margar ástæður fyrir því en ég tel að hann sé svolítið hræddur því hann verður ekki sami gamli Ibra,“ sagði Maldini.
,,Ég man þegar Carlo Ancelotti setti mig á bekkinn í grannaslag og þá fattaði ég að ég gat ekki sætt mig við þannig tímabil. Ég veit ekki hvort Ibra geti sætt sig við það sama.“