Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, hefur svarað fyrir sig eftir gagnrýni sem hann fékk í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gær.
Einn af sérfræðingum þáttarins, Kristján Óli Sigurðsson, skaut þar föstum skotum að Ólafi sem hefur undanfarin tvö sumur þjálfað FH.
Kristján sagði að margir leikmenn væru komnir með nóg undir stjórn Ólafs og væru að ‘flýja Krikann’ eftir erfitt sumar.
Ólafur mætti í útvarpsþátt Fótbolta.net í dag og þar fékk hann tækifæri á að svara fyrir sig og gerði það fullum hálsi.
,,Ég fagna allri umræðu um fótbolta eða flestu af því sem kemur. Það er bara mjög gott að menn séu tilbúnir að setjast niður og spjalla um þetta,“ sagði Ólafur til að byrja með.
,,Það sem er hættan í þessu er kannski er að ég veit ekkert hvort að ég nái til leikmanna eða ekki. Ég bað mína yfirmenn, framkvæmdarstjóra og stjórnarformann að taka púlsinn á leikmönnum bæði á tímabili og eftir tímabilið.“
Ólafur viðurkennir að einhverjir gætu verið ósáttir með eigin stöðu hjá félaginu en kannast ekki við það að hann sé búinn að missa klefann.
,,Það eru alltaf einhverjir sem eru ósáttir við leiktíma og kannski hlutverk og svoleiðis sem er alls staðar. Það kom ekki fram að því sem mér hefur verið tjáð að ég sé búinn að missa klefann eða hvað það er. Mér finnst kannski þessi fullyrðing, þetta jaðrar eiginlega bara við rógburð sko.“
,,Það sem þetta gerir er að ég hef enga möguleika á að verja mig frá þessu og verð að hlusta á þetta og taka þessu. Oft þegar svona er sagt þá verður það að sannleika. Þetta gerir það að verkum að allur leikmannahópur FH liggur undir grun að leka einhverju og grafa undan þjálfaranum.“
Ólafur hitti þá Kristján í Sporthúsinu í morgun en þeir ræddu málin ekki að þessu sinni.
,,Mér finnst þetta, ég mætti Kristjáni Óla í Sporthúsinu í morgun en friður veri með þessum, menn verða að eiga það við sína samvisku hvað þeir segja og hverju þeir kasta fram. Ég get ekkert varið mig eða hreinsað mig af þessu, þetta er bara eins og það er.“