Íþróttafréttamanninum Herði Magnússyni hefur verið sagt upp störfum á íþróttadeild Sýnar. Þetta herma öruggar heimildir DV.is. Tíðindin koma mörgum á óvart enda Hörður lengi starfað sem íþróttafréttamaður á Stöð 2 og Stöð 2 Sport. Hann hefur verið afar vinsæll í starfi sínu.
Herði var sagt upp störfum á fundi í höfuðstöðvum Sýnar í dag. Hann hefur stýrt umfjöllunar stöðvarinnar um Pepsi Max-deildina til margra ára og hlotið mikið lof fyrir.
Eiríkur Stefán Ásgeirsson, yfirmaður íþróttadeildar Sýnar, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og þá náðist ekki í Hörð við vinnslu fréttarinnar. Hörður hefur fest sig í sessi sem einn ástsælasti íþróttafréttamaður í sögu Íslands en knattspyrnuferill hans var einnig afar merkilegur.
Uppsagnir hafa verið nokkuð tíðar hjá Sýn undanfarið. Þannig var hinn virti knattspyrnusérfræðingur, Hjörvar Hafliðason, rekinn á dögunum.
Samkvæmt heimildum DV hefur samstarfsmönnum Harðars verið tilkynnt um þetta, komu tíðindin öllum í opna skjöldu. Hörður hafði starfað sem íþróttafréttamaður í 19 ár hjá fyrirtækinu.