Svo gæti farið að Mikael Nikulásson verði nýr þjálfari Njarðvíkur, í 2. deild karla. Hann staðfesti þetta í Dr. Football þættinum í dag.
Þar er Mikael sérfræðingur og hefur verið vinsæll í því hlutverki, hlustendur kalla hann King Mæk.
Mikael var lengi vel í þjálfun en hefur ekki verið í starfi frá því að Augnablik, þá í 3. deild lét hann fara árið 2013.
,,Það getur verið, það kemur í ljós á næstu dögum. Það er ekkert komið á hreint, ég hitti þá aðeins,“ sagði Mikael í Dr. Football í dag.
Mál Mikaels ættu að taka á sig mynd um helgina. ,,Ég hitti, Gylfa Bílaútsölu og, þegar svoleiðis kóngur hringir þá mætir maður, og sér hvað hann segir. Þetta kemur í ljós“
Njarðvík féll úr 1. deildinni í sumar og Rafn Markús lét af störfum. Mikael stýrði liði Núma í 3. deildinni hér á árum áður og þá stýrði hann liði ÍH frá 2006 til 2010, með góðum árangri.