Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu hefur staðfest að Roma hafi áhuga á sér. Félagið skoðar kosti sína og er Emil einn af þeim sem félagið hefur áhuga á. Emil var gestur í hlaðvarpsþættinum, FantasyGandalf.
Fyrst var fjallað um málið í gær. Þar er vitnað í ítalska miðla. Roma vantar miðjumenn en þeir Bryan Cristante, Lorenzo Pellegrini, Amadou Diawara og Henrikh Mkhitaryan eru allir frá vegna meiðsla.
Glugginn á Ítalíu er lokaður eins og á öðrum stöðum, félagið má því aðeins semja við leikmenn án félags og sem eru frá Evrópu. Emil hefur verið án félags síðan í sumar þegar samningur hans við Udinese rann út, hann er 35 ára gamall og leitar að nýju félagi.
Emil er ekki eini kosturinn á borði Rome en enskir miðlar segja frá því að Jack Rodwell reyni að komast til félagsins. Hann er án félags.
Rodwell var eitt sinn vonarstjarna Englands, hann var mikið efni hjá Everton og fór til Manchester City. Hann var svo hjá Sunderland lengi vel, á síðustu leiktíð var hann hjá Blackburn.
Valon Behrami sem var hjá Watford er einnig einn af þeim kostum sem Roma skoðar.