Jóhannes Karl Guðjónsson átti frábæran feril sem leikmaður en hann er í dag þjálfari ÍA í efstu deild hér heima.
Jói Kalli lék eitt sinn með liði Real Betis á Spáni en hann var þar í þrjú ár frá 2001 til 2004.
Þar lék hann með manni að nafni Joaquin sem margir knattspyrnuaðdáendur kannast við.
Joaquin er 38 ára gamall í dag og er enn að spila með Betis. Hann hefur þó komið við hjá Valencia, Malaga og Fiorentina á ferlinum.
Jói Kalli var gestur í hlaðvarpsþættinum frábæra Draumaliðið þar sem hann fer yfir málin með Jóa Skúla sem sér um þáttinn.
Hann segir skemmtilega sögu af Joaquin sem átti það til að kveikja sér í einni sígarettu inn í búningsklefa.
,,Þetta er frábær karakter og það var alltaf líf og fjör í kringum hann. Það var alveg skap í honum, þetta er hálfgerður götustrákur úr Sevilla,“ sagði Jói Kalli.
,,Hann var með frábæra hæfileika. Ég man eftir einu skemmtilegu atviki á æfingu þar sem mönnum lenti eitthvað saman og hann strunsar inn á undan öllum og fer í sturtu.“
,,Svo man ég eftir því að þegar ég kom labbandi inn í klefann og ætlaði sjálfur í sturtu þá stendur hann þar án klæða eins og menn gera en hann var með sígarettu í kjaftinum. Hann var eitthvað agalega pirraður.“
,,Á þessum tíma voru fullt af leikmönnum sem reyktu og fóru inn á klósett. Maður sá bara reykinn koma út af klósettinu. Hann þurfti að slaka og fékk sér eina sígarettu eftir æfingu.“
Þáttinn má heyra í heild sinni hér.