Kyle Walker, leikmaður Manchester City, óttast það að ferill hans með enska landsliðinu sé búinn.
Frá þessu greina enskir miðlar en Walker var ekki valinn í landsliðshóp Gareth Southgate í gær.
Walker var heldur ekki valinn í síðasta hóp og eru þeir Trent Alexander-Arnold og Kieran Trippier á undan honum.
Walker á að baki 48 landsleiki fyrir England en hann telur sjálfur að þeir verði ekki mikið fleiri.
Hægri bakvörðurinn er enn aðeins 29 ára gamall og er lykilmaður hjá City sem vann Englandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.