Líkur eru á að Sigríður Lára Garðarsdóttir taki slaginn áfram með ÍBV í Pepsi Max-deild kvenna. Mörg lið hafa reynt að fá Sigríði til liðs við sig nú í haust. Sigríður sem var meðal annars í hópi kvennalandsliðsins á EM í Hollandi árið 2017, gæti því tekið slaginn með ÍBV eftir að Andri Ólafsson var ráðinn þjálfari liðsins á dögunum.
Sigríður er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en hún er kröftugur miðjumaður, ÍBV var í fallbaráttu í Pepsi Max-deild kvenna í ár en góður lokasprettur bjargaði liðinu.
Sú saga gengur svo að ÍBV sé mjög virkt á leikmannamarkaðnum þessa stundina, þannig herma heimildir 433.is að liðið reyni að fá tvær efnilegustu knattspyrnukonur landsins í sínar raðir. ÍBV hefur samkvæmt heimildum áhuga á Ídu Marín Hermannsdóttir leikmanni Fylkis. Hún er aðeins 17 ára gömul en var öflug í sumar.
Ída á ættir að rekja til Eyja en faðir hennar er fyrrum landsliðsfyrirliðinn, Hermann Hreiðarsson. Samkvæmt heimildum 433.is hefur ÍBV mikinn áhuga á að fá hana í sínar raðir. Samningur Ídu við Fylki er senn á enda.
Samkvæmt sömu heimildum hefur ÍBV mikinn áhuga á að fá Sveindísi Jane Jónsdóttir, framherja Keflavíkur. Hún er fædd árið 2011 en er með samning við Keflavík til næstu tveggja ára. ÍBV þyrfti því að kaupa hana frá Keflavík. Fleiri lið reyna að fá Ídu og Sveindísi í sínar raðir en Andri Ólafsson, nýr þjálfari liðsins er sagður stórhuga fyrir næstu leiktíð og freistar þess að fá unga og efnilega leikmenn til Eyja.