Ólafur Jóhanneson lætur af störfum sem þjálfari meistaraflokks Vals.
Stjórn knattspyrnudeildar Vals hefur upplýst Ólaf Jóhannesson um að starfssamningur hans verði ekki endurnýjaður að loknu keppnistímabili því sem nú er að líða. Tilkynnt verður um eftirmann Ólafs innan skamms.
Ólafur varð Íslandsmeistari með Val sem leikmaður árið 1987 og kom svo aftur á Hlíðarenda sem þjálfari haustið 2014. Undir hans stjórn varð liðið bikarmeistari 2015 og 2016 og Íslandsmeistari 2017 og 2018. Undanfarin fjögur keppnistímabil hafa því verið gjöful og árangursrík og hefur meistaraflokkur karla tekið miklum framförum undir stjórn Ólafs sem er sannarlega einn besti þjálfari íslenskrar knattspyrnusögu.
,,Fimm ár eru langur tími í íslenskri knattspyrnu og það er mat stjórnar knattspyrnudeildar að nú þurfi nýjar hendur að taka um stýrið. Valur stendur í mikilli þakkarskuld við Ólaf fyrir árangurinn á umliðnum árum og óskar honum velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur.”
Stjórn knattspyrnudeildar Vals