Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Gróttu, er mikið í umræðunni þessa stundina og er góð ástæða fyrir því.
Óskar náði frábærum árangri með Gróttu í sumar og kom liðinu mjög óvænt upp í efstu deild.
Það var farið ítarlega yfir stöðu Óskars í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag þar sem Mikael Nikulásson fór á kostum.
Mikael er einn af sérfræðingum þáttanna en hann þekkir Óskar vel og telur sig vita næsta skref hans.
,,Ef ég ætti að leggja peninginn minn á það þá myndi ég segja Breiðablik,“ sagði Mikael.
,,Það var sett eitthvað prógram í gang hjá Gróttu fyrir tveimur árum og þeir fóru langt framyfir sín markmið.“
,,Óskar Hrafn átti ekki von í sínum villtustu draumum að vera að fara að spila í efstu deild á næsta ári. Hann átti kannski von á því að vera í toppbaráttu á næsta ári eða jafnvel fara upp.“
,,Hann er frábær þjálfari, fær mikið lof og Gróttan orðin stabílt lið í Inkasso og einhver lið hringja í hann.“
Mikael segir að nú sé planið breytt en Óskar er með ákveðna hugmyndafræði og vill halda henni á velli.
,,Planið breyttist, nú eru þeir komnir upp. Hann er með vissa hugmyndafræði og kom hérna í langt viðtal fyrir ekki svo löngu síðan þar sem hann fór yfir hvernig hann vildi spila.“
,,Það verða margir leiðinlegir fótboltaleikir fyrir Gróttu næsta sumar ef þeir ætla ekki að vera fallbyssufóður fyrir lið í þessari deild. Hann veit það alveg.“
,,Ef hann getur fengið Breiðablik og haldið áfram að láta hugmyndafræðina virka því Breiðablik er með miklu betri leikemnnen Grótta í öllum stöðum þá held ég að hann muni taka þann slag og bara fyrir sjálfan sig og reyna að gera þá að Íslandsmeisturunum.“
,,Í staðinn að hætta með Gróttu eftir síðasta samningsárið því hann vill standa við sinn samning og kannski skítfalla og allir fara að tala um þessa hugmyndafræði í 1.deildinni, af hverju að borga laun núna? Ætla þeir ekki alltaf að spila úr teignum, það gengur ekkert ef þú ert að tapa 5 eða 6-0.“
,,Ég held að ef Breiðablik kemur með gott tilboð þá er það eina liðið eða KR og hann fer ekki í KR núna. Ég held að Blikarnir séu búnir að bjóða honum samning og ég held að han taki það.“