Gunnlaugur Jónsson, fyrrum leikmaður KR, var gestur í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið í dag.
Draumaliðið er afar skemmtilegur þáttur þar sem Jói Skúli ræðir við gesti um bestu leikmenn sem þeir hafa spilað með.
Gunnlaugur spilaði með ófáum góðum en ræddi einnig mest óþolandi andstæðing á ferlinum.
Þar nefnir Gunnlaugur miðjumanninn Arnar Þór Viðarsson en þeir mættust er Arnar spilaði með Lokeren í Belgíu.
,,Mest óþolandi andstæðingur á mínum ferli er Arnar Þór Viðarsson. Það er bara einn leikur og það er í eina skiptið sem ég ætlaði að drepa leikmann,“ sagði Gunnlaugur.
,,Logi var þjálfari árið 1999 og við mættum Lokeren í Inter toto keppninni. Logi setur mig djúpan á miðjuna, það átti að þétta aðeins.“
,,Arnar Viðarsson er á miðjunni líka. Hann er að stíga sín fyrstu skref. Við erum að senda langa upp og ég var góður í loftinu en hann var alltaf að stjaka við mér þegar ég var að fara í loftið og hann gerði það svona 30 sinnum og ég var að verða brjálaður.“
,,Við vorum ágætis félagar en síðasta korterið þá náði hann að forðast mig því ég ætlaði gjörsamlega að fótbrjóta manninn. Þetta situr ennþá í mér.“