Andre Villas-Boas, stjóri Marseille, var á óskalista Paris Saint-Germain fyrir sex árum síðan.
Portúgalinn greindi sjálfur frá þessu í viðtali í dag en PSG vildi fá hann til að taka við af Carlo Ancelotti árið 2013.
Villas-Boas var þá þjálfari Tottenham en hann fékk nóg er hann var í fríi ásamt fjölskyldu sinni yfir sumarið.
,,Ég var í fríi með fjölskyldunni. Nasser-Al-Khelaifi [eigandi PSG] hringdi í mig á hverjum degi. Ég þekki hann því ég fer oft til Katar,“ sagði Villas-Boas.
,,Hann hringdi í mig og spurði mig hvort ég væri í lagi. Hann sagði að þeir vildu fara í viðræður og að Leonardo [yfirmaður knattspyrnumála] myndi hringja í mig í framtíðinni.“
,,Leonardo hringdi í mig og við áttum ekki gott samtal. Það var engin tenging okkar á milli.“
,,Ég hringdi aftur í Nasser og sagðist ekki vera á leiðinni til París. Hann spurði mig hvað hefði gerst og ég sagði að samtalið hafi verið slæmt.“
,,Ég sagðist vera að reyna að slaka á hérna, láttu mig vera.“