Kári Árnason, fagnar 37 ára afmæli sínu í næsta mánuði en þessi frábæri varnarmaður er enn í fullu fjöri. Hann virðist eldast eins og rauðvín, hefur sjaldan spilað betur fyrir íslenska landsliðið.
Kári á stóra viku frá laugardeginum, tveir leikir með íslensk landsliðinu og síðan fylgir bikarúrslitaleikur með uppeldisfélagnu, Víkingi.
,,Þetta er mjög stór vika á mínum fótboltaferli, þrír leikir á sirka viku. Við verðum að fara í hvern einasta leik til að vinna hann, við erum ekki að fara að reyna að ná í stig hér og þar,“ sagði Kári um verkefni landsliðsins.
Liðið er með níu stig í undankeppni EM, líkt og Frakkland og Tyrkland. Liðið mætir Moldóvu á laugardag og Albaníu ytra á þriðjudag.
,,Það er ekki mikið svigrúm fyrir mistök, Albanía er á hælunum á okkur. Það þarf lítið að fara úrskeiðis svo þetta fari norður og niður.“
Nokkra lykilmenn vantar í liðið, Jóhann Berg Guðmundsson, Alreð Finnbogason og Arnór Sigurðsson.
,,Maður bjóst við því að þetta væri leikrit hjá Jóa, það hefur verið þannig síðustu skipti sem við höfum komið saman. Það var gefið að Alfreð mynd ekki spila stórt hlutverk, það er erfitt að missa góða leikmenn.“