,,Það hefur gengið vel að halda sér í formi, ég er búinn að æfa mjög vel með FH og sjálfur,“ sagði Emil Hallfreðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins sem hefur verið án félags frá því í júlí. Emil er að skoða stöðu sína, mál hans ættu að skýrast á næstu vikum.
Emil er mættur í verkefni með landsliðinu, liðinu á tvo leiki á næstu dögum í undankeppni EM. Liðið mætir Moldóvu á laugardag, hér heima og Albaníu á útivelli eftir viku.
,,Ég er 100 prósent í standi, og klár í þessa leiki. Betri en í júní þar sem ég er að koma úr aðgerð, ég er klár í að spila laugardag og þriðjudag.“
Þeir sem fylgjast með Emil og eiginkonu hans á samfélagsmiðlum, hafa tekið eftir því að Emil hefur æft vel. Þá sérstaklega á kvöldin, þegar gleðistund fer fram. Þá fer Emil á „Assault“ hjól sem rífur vel í.
,,Happy hour er að skila sínu, það er hluti af þessari geðveiki. Mér finnst gaman að æfa, ég vil vera í standi. Maður tekur stundum æfingu á kvöldin ef maður er með samviskubit.“
Um stöðu sína og hvar málin eru stödd. ,,Þetta er í vinnslu, ég ákvað að koma inn í þetta landsliðsverkefni og tækla þetta svo. Þessir tveir leikir geta hjálpað mér, ég lagði þetta til hliðar þessa vikuna.“
Viðtalið er í heild hér að neðan.