Landslið Íslands leikur með sorgarbönd gegn Slóvakíu í kvöld vegna fráfalls Atla Eðvaldssonar, fyrrverandi landsliðsfyrirliða og landsliðsþjálfara.
Atli féll frá í dag eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Sif Atladóttir, dóttir hans er sökum þess ekki með kvennalandsliðinu í leiknum.
Þessi merki maður fellur frá 62 ára gamall en hann hafði tjáð sig ítarlega um baráttuna við krabbameinið.
„Ég upplifði að allt það sem var í boði í læknavísindum vestræna heimsins, það er allt sem skerðir lífsgæði verulega. Þessi lyf, þetta er ofboðslegt eitur. Ég var búinn að lesa mig til þetta, og hugsaði að ef ég fæ þennan sjúkdóm, þá ætla ég að gera þetta svona,“ sagði Atli við Bylgjuna um liðna páska.
Hann ákvað að fara ekki í hefðbundnar meðferðir sem sjúkrahús bjóða fólki. „Ég var ofsalega rólegur, ég ákvað að ég þyrfti að fara yfir þetta. Ég fór að tala við lækni og tók enga ákvörðun strax. Ég verð að fara yfir þetta. Ég sagði við lækninn:
‘Ef ég er að fara í úrslitaleik í fótbolta, hann er í heimsmeistarakeppninni eftir átta mánuði, þá vil ég reyna að byggja upp ónæmiskerfið, eins sterkt og ég get haft það. Ég þarf á því að halda, nýta það og vinna. Ef ég ætla aftur á móti að fara hina leiðina, að veikja það og brjóta það niður, tel ég mig miðað við mína íþróttaþekkingu vera verr undir það búinn að geta tekist á við krabbameinið.’
Atli kvaðst svo hafa talað við sjúkdóminn. ,,Ég sagði við krabbameinið, við erum hérna tvö. Ef þú ætlar að vinna deyjum við bæði. Við þurfum að reyna að komast að samkomulagi að finna milliveg, þannig að við höldum okkur báðum á lífi. Það sem líkaminn getur búið til getur líkaminn líka tekið til baka.“
,,Mesta sjokkið fyrir mig var, þegar þú ætlar að taka á þínum málum, að þú hefur ekkert leyfi til að taka á þeim. Svona mál eru kerfismál, sem þýðir að allt sem heita hefðbundin lyf eru borguð en ef þú ætlar út í eitthvað annað, ef þú vilt ekki þessi lyf heldur önnur lyf, þá þarftu að redda því sjálfur“
Atli átti merkilegan feril sem knattspyrnumaður, hann lék meðal annars með Borussia Dortmund, Fortuna Düsseldorf og fleiri liðum. Atli var landsliðsþjálfari frá 1999 til 2003 en hann þjálfaði fjölda liða.
Landslið Íslands leikur með sorgarbönd gegn Slóvakíu í kvöld vegna fráfalls Atla Eðvaldssonar, fyrrverandi landsliðsfyrirliða og landsliðsþjálfara.
Atli féll frá í dag eftir hetjulega baráttu við krabbamein. #fyririsland pic.twitter.com/qNipg1LXMm
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) September 2, 2019