Alexis Sanchez er mættur til Ítalíu til að skrifa undir hjá Inter, hann kemur á láni frá Manchester United.
Inter borgar hluta af launum Sanchez en hefur ekki forkaupsrétt á honum næsta sumar.
Það er búið að ná samkomulagi um kaup og kjör og á Sanchez aðeins eftir að gangast undir læknisskoðun. Vængmaðurinn stóðst ekki væntingar á Old Trafford eftir að hafa komið frá Arsenal á síðasta ári.
Sanchez var launahæsti leikmaður United og ku hafa haft föst laun upp á 350 þúsund pund á viku. The Athletic segir að það hafi pirrað margar stjörnur United.
Vefurinn segir að David de Gea, Paul Pogba og Ander Herrera, sem gekk í raðir PSG í sumar hafi allir verið pirraðir. Þeim fannst óeðlilegt að Sanchez væri sá launahæsti, á meðan hann gerði ekkert innan vallar.