

Guðjón Pétur Lýðsson miðjumaður Breiðabliks var ansi reiður í viðtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
Það sauð á Blikum eftir tap gegn Víkingi í undanúrslitum bikarsins í gær, vonir Blikar um sinn fyrsta bikar frá 2010 að hverfa á braut.
Þorvaldur Árnason var dómari leiksins og ber Guðjón honum söguna ekki vel.
„Við reyndum allan tímann að gera eins mikið og við gátum en því miður var þetta ekki okkar dagur. Mér fannst Þorvaldur líka ömurlegur. Hann leyfði þeim að tefja allan seinni hálfleikinn og var skíthræddur við þá,“ sagði Guðjón við Morgunblaðið.
Guðjón segir að Þorvaldur hafi verið skíthræddur við Kára Árnason landsliðsmann og leikmann Víkings.
,,Honum fannst eitthvað erfitt að tala við Kára. Kári sparkaði með hnéð í andlitið á mér en hann þorði ekki að dæma spjald. Hann hamraði niður í lokin, boltinn löngu farinn, en aftur þorði hann ekki að rífa upp spjaldið. Hann var tefjandi allan leikinn en hann reif aldrei upp spjald, dómarinn var glataður.“
