Robin Van Persie, fyrrum framherji Manchester United kallar eftir því að Ole Gunnar Solskjær fái þolinmæði í starfi hjá félaginu.
Solskjær er að reyna að byggja upp nýtt og betra United lið. Van Persie vonar að Solskjær fái tíma til þess, hann kann vel við hugmyndafræði hans.
,,Ég kann ekki við alla þá neikvæðni sem er í kringum United, fyrir nokkrum mánuðum vildu allir gefa honum starfið eftir sigurinn á PSG í Meistaradeildinni,“ sagði Van Persie.
,,Núna efast margir um hann og tala um hvort hann geti höndlað starfið, ég bið fólk um að gefa honum tíma.“
,,Hann skilur félagið og veit hvaða væntingar eru gerðar, hann getur orðið frábær ef hann fær tækifærið.“
Hann taldi upp fjórar ástæður þess, af hverju hann hefur trú á Solskjær.
,,Ég kann vel við það hvernig hann talar um félagið, hvaða ímynd hann vill skapa, hvernig hann talar um sóknarfótboltann og hvernig hann vill spila.“
,,Fólk hefur talað um það hafi vantað skemmtanagildi hjá Van Gaal og Mourinho, núna er maður sem vill spila sóknarfótbolta. Það verður að styðja hann.“