Jermaine Jones, fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna, hefur tjáð sig um bandaríska kvennalandsliðið.
Bandarísku stúlkurnar unnu HM í sumar og hafa margir kallað eftir því að þær fái eins vel borgað fyrir sín störf og karlarnir.
Jones segir að það sé ekki raunsætt markmið og segir að konurnar verði að passa sig.
,,Það er mikill munur á karla og kvenna íþróttum. Nefnið eitt land þar sem konurnar fá borgað það sama og karlarnir. Það er ekki til,“ sagði Jones.
,,Stelpurnar eru að öskra eftir því að fá aðeins meiri virðingu og klapp á bakið fyrir það sem þær eru að gera og ég held að það sé ástæðan fyrir þessu öllu saman.“
,,Þær verða að passa sig því leikmenn eins og Alex Morgan, þær fá betur borgað en sumir af körlunum.“
,,Svo ákveða þær að öskra þetta opinberlega og segja að þær þurfi að fá betur borgað. Það gæti komið í bakið á þeim mjög fljótt.“