Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að það sé þvæla að einhverjir leikmenn í efstu deild fái yfir 3,6 milljónir króna á mánuði.
Leikmannasamtökin birtu könnun sem gerð var á dögunum þar sem þrír leikmenn sögðust fá það í mánaðarlaun.
Það eru flestir sem kaupa þessar tölur ekki en íslenska Pepsi Max-deildin er ekki atvinnumennska. Rúnar er á sama máli.
„Þetta er svo mikil þvæla maður. Þetta er svo mikil þvæla að hálfa væri nóg. Það er enginn með svoleiðis laun hjá mér, nei, og mun aldrei verða held ég í íslenskum fótbolta. Það er nú bara eins og það er,“ sagði Rúnar í samtali við RÚV.
Stjarnan undirbýr sig nú fyrir erfitt verkefni en liðið leikur við Espanyol frá Spáni á morgun.
Um er að ræða leik í Evrópudeildinni en Stjarnan tapaði fyrri leiknum 4-0 úti og er því nánast úr leik.