Frank Lampard, stjóri Chelsea, sá sína menn vinna Reading 4-3 í frábærum vináttuleik í dag.
Lampard var ánægður með stuðninginn sem Chelsea fékk í dag en það var þó sungið nokkur lög um grannana í Tottenham og West Ham.
Í þeim lögum var mikið blótað og var Lampard spurður út í það eftir leik – hann vill ekki heyra svoleiðis úr stúkunni.
,,Stuðningurinn var magnaður. Ég heyrði ekki þetta lag sem þú ert að tala um,“ sagði Lampard.
,,Ef það er lag sem er sungið í dag eða einhvern annan dag og það er óviðeigandi þá vil ég ekki heyra það.“
,,Það segi ég sem mikill stuðningsmaður Chelsea sem er þakklátur fyrir stuðninginn sem ég fékk yfir árin.“
,,Við viljum ekki heyra lög þar sem er blótað. Ef stuðningsmenn syngja önnur lög þá styð ég það.“