Carlos Alena, leikmaður Barcelona, er hundfúll út í félagið eftir félagaskipti Frenkie de Jong.
De Jong var keyptur frá Ajax í sumar og mun klæðast treyju númer 21 á næstu leiktíð.
Það númer er þýðingarmikið fyrir De Jong en afi hans lést er hann fagnaði 21 árs afmæli sínu, þeir voru mjög nánir.
Hollendingurinn greindi frá því fyrr í sumar að hann hefði rætt við Alena og að hann hefði glaður látið hann fá númerið.
Alena viðurkennir að það sé rétt en er þó ekki sáttur með vinnubrögð spænska félagsins.
,,Að láta De Jong fá treyjuna var eitthvað á milli mín og hans,“ sagði Alena við blaðamenn.
,,Ég hefði viljað fá skilaboð frá stjórninni því þeir lofuðu honum númerið án þess að láta mig vita.“
,,Það skilur eftir sig vont bragð í munninum og var ekki þægilegt. Ég hef alltaf hagað mér vel hjá félaginu.“